Úlfarnir unnu frækinn sigur á City

Wolves vann frækinn útisigur gegn Englandsmeisturum Manchester City, 2:0, í áttundu umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu í dag. Chelsea vann sannfærandi sigur á útivelli gegn Southampton og Arsenal marði sigur heima gegn Bournemouth.

Heimamenn áttu erfiðan dag á Etihad leikvanginum í Manchester en leikurinn var markalaus í 80 mínútur þökk sé sterkum varnarleik gestanna frá Wolves sem gáfu fá færi á sér. Adama Traoré kom þeim svo yfir tíu mínútum fyrir leikslok með marki úr skyndisókn og, eftir að City lagði allt í sölurnar til að kreista fram jöfnunarmark, bætti við marki seint í uppbótartíma úr annarri snöggri sókn. Wolves er því komið upp í 15. sætið með sjö stig en City, enn í öðru sæti, er nú átta stigum á eftir toppliði Liverpool.

Chelsea er komið upp að hlið Leicester í fjórða sætinu eftir 4:1-útisigur gegn Southampton á St. Mary's en áfram eru ungu ensku strákarnir að skora fyrir Frank Lampard, stjóra liðsins. Tammy Abraham skoraði áttunda deildarmarkið sitt á 17. mínútu og Mason Mount kom Chelsea í 2:0 áður en Danny Ings minnkaði muninn fyrir hálfleik. Mörk frá N'golo Kanté og Michy Batshuayi innsigluðu þó fínan sigur Chelsea.

Þá marði Arsenal 1:0-sigur á Bournemouth á Emirates leikvanginum en eina mark leiksins skoraði varnarmaðurinn David Luiz eftir hornspyrnu Nicolas Pepe á 9. mínútu. Arsenal er í 3. sætinu með 15 stig, nú stigi á eftir City.

Úrslitin
Arsenal - Bournemouth 1:0
Manchester City - Wolves 0:2
Southampton - Chelsea 1:4

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Enski boltinn í beinni opna loka
kl. 14:54 Leik lokið Úlfarnir vinna frækinn sigur gegn meisturunum! Chelsea burstaði Southampton og Arsenal marði sigur heima gegn Bournemouth.
mbl.is