Erfitt að vera leikmaður Liverpool

Jürgen Klopp var manna sáttastur eftir 2:1-sigur sinna manna gegn …
Jürgen Klopp var manna sáttastur eftir 2:1-sigur sinna manna gegn Leicester um helgina. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool í ensku úrvalsdeildinni, var afar sáttur með 2:1-sigur sinna manna gegn Leicester í ensku úrvalsdeildinni á laugardaginn síðasta. James Milner skoraði sigurmark leiksins úr vítaspyrnu í uppbótartíma eftir að brotið hafði verið á Sadio Mané innan teigs.

Margir vilja meina að sigur Liverpool hafi verið heppni en þýski stjórinn er ekki sammála því. „Þegar að þú skorar úr vítaspyrnu í uppbótartíma þá vilja margir meina að það sé heppni,“ sagði Klopp í samtali við heimasíðu Liverpool eftir leik. „Ef við horfum hins vegar á leikinn þá fengum við betri færi og við vorum sterkari aðilinn allan tímann.“

„Þetta var risastór sigur fyrir okkur ef ég á að vera alveg hreinskilinn. Enska úrvalsdeildin er sterkasta deild í heimi og það er erfitt að vera leikmaður Liverpool. Ég tel að Leicester muni enda í efstu fjórum sætunum næsta vor og þá fá þeir smjörþefinn af því hvernig það er að spila tvisvar sinnum í viku yfir tímabilið.“

„Ef við skoðum leikinn sjálfan þá sköpuðum við okkur færi á meðan ég man ekki eftir mörgum opnum marktækifærum frá þeim. Þeir gera hins vegar vel í að jafna metin, eftir að við vorum farnir að finna fyrir smá þreytu. Heilt yfir þá fannst mér samt við samt reyna vinna leikinn allan tímann og því áttum við sigurinn skilinn,“ sagði Klopp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert