Mourinho hefur augastað á Tottenham

José Mourinho.
José Mourinho. AFP

José Mourinho er sagður horfa til Tottenham fari svo að Mauricio Pochettino verði rekinn úr starfi knattspyrnustjóra hjá félaginu.

Mourinho var rekinn frá Manchester United í desember á síðasta ári og hefur ekki komist í starf hjá öðru félagi síðan þá en hann hefur starfað fyrir sjónvarpsstöðvar og var nýlega ráðinn í starf hjá Sky Sports. Mourinho hafnaði tilboði frá portúgalska liðinu Benfica og kínverska liðinu Guangzhou Evergrande en hann er sagður vilja komast aftur til Englands eða taka aftur við Real Madrid fari svo að Zinedine Zidane missi starf sitt hjá félaginu.

Illa hefur gengið hjá Tottenham á leiktíðinni. Liðið steinlá fyrir Bayern München 7:2 í Meistaradeildinni í síðustu viku og í kjölfarið tapaði Lundúnaliðið fyrir Brighton 3:0 í ensku úrvalsdeildinni. Tottenham er í 9. sæti deildarinnar en það hefur tapað þremur af átta leikjum sínum og ekki er langt síðan það tapaði fyrir D-deildarliðinu Colchester United í ensku deildabikarkeppninni.

mbl.is