Óttast um starf sitt

Ole Gunnar Solskjær er á síðasta séns hjá Manchester United …
Ole Gunnar Solskjær er á síðasta séns hjá Manchester United samkvæmt fréttum á Englandi. AFP

Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, óttast um starf sitt þessa dagana en það eru enskir fjölmiðlar sem greina frá þessu. United hefur byrjað tímabilið afar illa en liðið er í tólfta sæti deildarinnar með 9 stig eftir fyrstu átta umferðirnar. Liðið tapaði 1:0-fyrir Newcastle á útivelli í síðustu umferð en United hefur nú þegar tapað þremur leikjum á tímabilinu til þessa og aðeins unnið tvo deildarleiki.

Liðið hefur ekki byrjað verr í deildinni í þrjátíu ár og eru margir stuðningsmenn United að missa þolimmæðina gagnvart Norðmanninum. Solskjær fékk stuðningsyfirlýsingu frá forráðamönnum United eftir tapleikinn gegn Newcastle en sparkspekingar á Englandi gefa lítið fyrir hana. Þá greina fjölmiðlar á Englandi frá því að ef United tapar illa fyrir Liverpool á heimavelli 20. október næstkomandi muni Solskjær fá sparkið.

Norðmaðurinn tók við United í desember eftir að José Mourinho var látinn taka pokann sinn. Solskjær var í fyrstu ráðinn tímabundinn knattspyrnustjóri liðsins en liðið náði í frábær úrslit undir stjórn Norðmannsins sem varð til þess að hann skrifaði undir þriggja ára samning við félagið í lok mars á þessu ári. Síðan þá hefur hallað undan fæti hjá Solskjær og United og virðast flestir komnir með nóg af Norðmanninum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert