Þarf tíma til að aðlagast

Nicolas Pépé hefur ekki heillað marga í fyrstu leikjum sínum …
Nicolas Pépé hefur ekki heillað marga í fyrstu leikjum sínum með Arsenal. AFP

Nicolas Pépé, sóknarmaður enska knattspyrnufélagsins Arsenal, hefur ekki farið neitt sérstaklega vel af stað með sínu nýja félagi. Pépé gekk til liðs við Arsenal frá franska 1. deildarliðinu Lille í sumar en enska félagið borgaði 72 milljónir punda fyrir Pépé sem er dýrasti leikmaður í sögu félagsins.

Margir sparkspekingar á Englandi hafa gagrýnt leikmanninn fyrir spilamennsku sína í undanförnum leikjum en Arséne Wenger, fyrrverandi stjóri Arsenal, hefur kallað eftir þolinmæði gagnvart leikmanninum. „Ég er hrifinn af Pépé og þar var góð ákvörðun að kaupa hann til félagsins,“ sagði Wenger í samtali við enska fjölmiðla.

„Hann hefur ekki ennþá náð að aðlagast lífinu á Englandi og hann þarf tíma. Hann hefur ekki sama frelsi hjá Arsenal og hann hafði hjá Lille. Hann mætti hreyfa sig betur án bolta en ég tel að hann verði góður leikmaður fyrir félagið á komandi árum. Hann þarf hins vegar að gefa í því það eru ungir uppaldir leikmenn sem eru að koma sterkir inn líka,“ bætti Wenger við.

mbl.is