Á Klopp allt að þakka

Trent Alexander-Arnold er einn af betri hægri bakvörðum heims í …
Trent Alexander-Arnold er einn af betri hægri bakvörðum heims í dag. AFP

Trent Alexander-Arnold, bakvörður enska kanttspyrnufélagsins Liverpool, viðurkennir að hann eigi Jürgen Klopp, knattspyrnustjóra liðsins, allt að þakka. Alexander-Arnold, sem er 21 árs gamall,  hefur stimplað sig inn sem einn af bestu hægri bakvörðum heims undanfarin tímabil en hann fékk fyrst tækifæri með aðalliði Liverpool í október 2016, þá 18 ára gamall. 

„Ég á honum allt að þakka, svo einfalt er það,“ sagði Alexander-Arnold í samtali við Sky Sports. „Hver veit hvar ég væri í dag ef hann hefði ekki verið knattspyrnustjóri Liverpool á þessum tíma. Hann hafði alltaf trú á mér, sama hvað, og hann gaf mér fleiri tækifæri en ég átti sjálfur von á.“

„Hann hefur gríðarlega mikla trú á mér og ég reyni að launa honum það með góðum frammistöðum. Fljótlega eftir að hann tók við Liverpool í október 2015 var hann mættur á æfingasvæði akademíunnar til þess að fylgjast með okkur ungu strákunum. Bara að sjá hann þarna gaf okkur gríðarlega mikið sjálfstraust.“

„Við fórum að trúa því að hann væri þarna því hann ætlaði sér að gefa okkur tækifæri og það gerði hann svo sannarlega. Hann hefur verið mjög duglegur að gefa ungum leikmönnum tækifæri frá því hann kom og eins og ég sagði áðan þá er það honum að þakka að ég er fastamaður í liðinu í dag,“ sagði Alexander-Arnold.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert