Cech búinn að semja við íshokkílið

Petr Cech.
Petr Cech. AFP

Tékkinn Petr Cech, fyrrverandi markvörður ensku úrvalsdeildarliðanna Chelsea og Arsenal, ætlar að reyna fyrir sér í annarri íþrótt en hann hefur samið við breska íshokkíliðið Guildford Phoenix.

Cech, sem er 37 ára gamall og lagði markmannshanskana á hilluna, segist vilja finna aftur ástríðuna fyrir íþróttinni en hann spilaði íshokkí sem ungur drengur. Hann leikur sinn fyrsta leik með liðinu um komandi helgi en það var stofnað fyrir tveimur árum.

„Ég er ánægður að fá tækifæri til spila með Phoenix og vonandi get ég hjálpað þessu unga liði að ná markmiðum sínum á tímabilinu og reyna að vinna eins marga leiki og ég get þegar ég fæ tækifæri til þess að spila. Eftir 20 ára feril sem atvinnumaður í fótbolta verður frábær reynsla fyrir mig að spila leik sem ég elska að horfa á og spilaði sem barn,“ segir Cech á vef Guildford Phoenix.

Cech varð fjórum sinnum enskur meistari með Chelsea, vann deildabikarinn þrisvar sinnum og vann bæði Meistaradeildina og Evrópudeildina með liðinu. Með Arsenal vann hann einn bikarmeistaratitil.

mbl.is