Eftirmaður Solskjærs fundinn?

Julian Nagelsmann er einungis 32 ára gamall.
Julian Nagelsmann er einungis 32 ára gamall. AFP

Julian Nagelsmann, knattspyrnustjóri RB Leipzig í þýsku 1. deildinni, er orðaður við stjórastöðuna hjá enska úrvalsdeildarfélaginu Manchester United í enskum fjölmiðlum í dag. Nagelsmann er einungis 32 ára gamall en þrátt fyrir það hefur hann stýrt bæði Hoffenheim og RB Leipzig í Þýskalandi. 

Nagelsmann stýrði liði Hoffenheim á árunum 2016 til 2019 við góðan orðstír og var meðal annars orðaður við stærstu lið heims þegar tilkynnt var að hann myndi yfirgefa Hoffenheim árið 2018. Þjóðverjinn er fæddur í Landsberg í Þýskalandi en hann varð 32 ára gamall 23. júlí síðastliðinn.

RB Leipzig hefur farið vel af stað á þessari leiktíð og er í fjórða sæti deildarinnar með 14 stig eftir fyrstu sjö umferðirnar, tveimur stigum minna en topplið Borussia Mönchengladbach. Ole Gunnar Solskjær, stjóri United, þykir ansi valtur í sessi þessa dagan eftir slaka byrjun á tímabilinu í bæði deildinni og Evrópudeildinni.

United situr í tólfta sæti ensku úrvalsdeildarinnar með einungis 9 stig eftir fyrstu átta umferðirnar. United tekur á móti Liverpool 20. október á Old Trafford og gæti Solskjær fengið sparkið ef United tapar illa. Nagelsmann er einn mest spennandi stjórinn í dag og sjá forráðamenn United hann sem hugsanlegan framtíðarstjóra næstu áratugina.

mbl.is