Hreinsanir fram undan hjá Tottenham

Mauricio Pochettino hefur stýrt liði Tottenham frá árinu 2014.
Mauricio Pochettino hefur stýrt liði Tottenham frá árinu 2014. AFP

Mauricio Pochettino, knattspyrnustjóri Tottenham, ætlar sér að taka til í leikmannahóp liðsins í janúar þegar félagsskiptaglugginn verður opnaður en það eru ensku götublöðin sem greina frá þessu. Tottenham hefur farið illa af stað á þessari leiktíð og tapaði meðal annars 3:0-fyrir Brighton á útivelli í síðustu umferð.

Þá steinlá liðið á heimavelli í Meistaradeild Evrópu í síðustu viku gegn Bayern München, 7:2. Tottenham er í níunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 11 stig eftir fyrstu átta umferðirnar en liðið fór alla leið í úrslit Meistaradeildarinnar á síðustu leiktíð. Þar tapaði Tottenham 2:0-fyrir Liverpool í úrslitaleik í Madrid.

Ensku götublöðin greina frá því að Christian Eriksen, Eric Dier, Serge Aurier, Victor Wanyama og Danny Rose muni allir yfirgefa félagið. Eriksen verður samningslaus næsta sumar en framtíð hans hefur verið mikið í umræðunni. Lítil endurnýjun hefur átt sér stað í leikmannahópi liðsins frá því stjórinn tók við árið 2014 og er hann nú sagður tilbúinn að hreinsa til.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert