Fjögur skotmörk Solskjærs

Kalidou Koulibaly og Harry Maguire gætu orðið miðvarðapar Manchester United …
Kalidou Koulibaly og Harry Maguire gætu orðið miðvarðapar Manchester United á næstu leiktíð. AFP

Enska knattspyrnufélagið Manchester United hefur ekki farið vel af stað á þessari leiktíð en liðið situr sem stendur í tólfta sæti deildarinnar með 9 stig eftir fyrstu átta umferðirnar. United hefur nú þegar tapað þremur leikjum í deildinni á þessari leiktíð og er þetta versta byrjun félagsins í 30 ár.

Enskir fjölmiðlar greina frá því í dag að norski stjórinn muni bæði fá tíma og fjármagn til þess að byggja upp knattspyrnulið á Old Trafford á næstu árum. Solskjær eyddi 150 milljónum punda í leikmenn síðasta sumar en þeir Harry Maguire, Daniel James og Aaron Wan-Bissaka skrifuðu allir undir samninga við félagið.

Samkvæmt fréttum á Englandi mun Solskjær fá 250 milljónir punda til þess að kaupa nýja leikmenn næsta sumar. Leikmennirnir sem eru sagðir efstir á óskalista Norðmannsins eru þeir Kalidou Koulibaly, Ben Chilwell, James Maddison og Moussa Dembélé. Koulibaly er einn eftirsóttasti varnarmaður heims en hann kostar um 100 milljónir punda.

Chilwell og Maddison leika báðir með Leicester City og eru lykilmenn í liðinu. Þeir eru báðir enskir og munu því kosta sitt en Maddison var metinn á um 70 milljónir punda í sumar. Dembélé er franskur framherji sem hefur leikið með Lyon frá árinu 2018 þar sem hann hefur skorað 21 mark í 41 leik.

mbl.is