Öruggur eins og er

Marco Silva fær tíma til þess að snúa gengi Everton …
Marco Silva fær tíma til þess að snúa gengi Everton við. AFP

Marco Silva, knattspyrnustjóri Everton í ensku úrvalsdeildinni, verður ekki rekinn á næstu dögum en það er Sky Sports sem greinir frá þessu. Everton hefur byrjað tímabilið afar illa í ensku úrvalsdeildinni en liðið er sem stendur í átjánda sæti deildarinnar, fallsæti, með 7 stig eftir fyrstu átta leiki sína.

Everton hefur tapað fimm leikjum í deildinni, gert eitt jafntefli og unnið tvo leiki. Þá hefur liðið aðeins skorað sex mörk í fyrstu átta leikjum sínum en Silva hefur fengið umtalsvert fjármagn, bæði síðasta sumar og þarsíðasta sumar, til þess að styrkja leikmannahópinn. Þeir leikmenn sem hafa verið keyptir hafa hins vegar ekki staðið undir væntingum.

Sky Sports greinir frá því að Silva muni fá tíma til þess að snúa genginu við en fari svo að Everton tapi næstu leikjum sínum gæti Portúgalinn fengið sparkið. Silva er sá knattspyrnustjóri í ensku úrvalsdeildinni sem þykir líklegastur til þess að vera rekinn hjá veðbönkum en hann tók við liði Everton í lok maí 2018 og er því á sínu öðru tímabili með liðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert