Tilbúnir að láta United róa

Chevrolet hefur verið aðalstyrktaraðili Manchester United frá árinu 2014.
Chevrolet hefur verið aðalstyrktaraðili Manchester United frá árinu 2014. AFP

Forráðamenn bandaríska bílaframleiðandans Chevrolet eru ósáttir við gengi enska knattspyrnufélagsins Manchester United en það eru enskir fjölmiðlar sem greina frá þessu. Chevrolet er aðalstyrktaraðili enska liðsins en Chevrolet borgaði United 400 milljónir punda fyrir sjö ára samning sem tók gildi árið 2014.

Chevrolet og United skrifuðu undir samninginn árið 2012 en þá var Sir Alex Ferguson enn þá knattspyrnustjóri liðsins. Hann lét af störfum eftir tímabilið 2013 og hefur leiðin legið niður á við hjá Manchester United síðan. Forráðamenn Chevrolet eru ekki ánægðir með þetta og eru nú sagðir leita leiða til þess að segja upp samstarfinu.

Núverandi samningurinn rennur út eftir tímabilið 2021-22 og er enginn áhugi hjá forráðamönnum Chevrolet um að halda samstarfinu áfram. Samkvæmt fréttum á Englandi eru forráðamenn Manchester United því farnir af stað við að reyna að finna nýja styrktaraðila en sú leit hefur ekki skilað miklum árangri samkvæmt fjölmiðlum á Englandi.

mbl.is