United að gjalda fyrir það að hafa rekið Mourinho of snemma

José Mourinho.
José Mourinho. AFP

Belginn Marouane Fellaini, fyrrverandi leikmaður Manchester United, segir að United sé að gjalda fyrir það að hafa rekið José Mourinho úr starfi knattspyrnustjóra liðsins of snemma.

„Félagið fékk einn besta stjórann í heimi þegar José Mourinho var ráðinn. Hann vildi byggja upp nýtt lið en United ákvað að reka hann. Það er ekki auðvelt að byggja lið á þessum tíma og þú þarft meira en tvö ár til þess,“ segir Fellanini í viðtali við enska blaðið Telegraph Belginn stóri yfirgaf Manchester United í janúar og gekk í raðir kínverska liðsins Shandong Luneng þegar honum var ljóst að hann var ekki inn í framtíðarplönum Ole Gunnars Solskjærs.

Ole Gunnar tók við United-liðinu af Mourinho í desember og eftir gott gengi til að byrja með hefur heldur betur hallað undan fæti hjá Norðmanninum og eftir átta umferðir í ensku úrvalsdeildinni er United í 12. sæti, aðeins tveimur stigum frá fallsæti.

„Ég veit ekki hvað United vill gera með Solskjær en fyrir mér, að vinna hluti og bæta árangurinn þá þarftu tíma. Mourinho gerði ótrúlega hluti á fyrsta tímabilinu. Hann bætti liðið og skilaði því titli. Annað tímabilið var erfiðara en hann reyndi og gerði sitt besta til að hjálpa liðinu en félagið ákvað að reka hann.“

Marouane Fellaini.
Marouane Fellaini. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert