Sveik samherjana um 63 milljónir

David Cotterill, fyrir miðju, fagnar ásamt Gareth Bale eftir að …
David Cotterill, fyrir miðju, fagnar ásamt Gareth Bale eftir að hafa skorað fyrir Wales. AFP

Í það minnsta sjö knattspyrnumenn hafa höfðað mál gegn David Cotterill, fyrrverandi landsliðsmanni Wales, vegna meintrar sviksemi varðandi lán á háum fjárhæðum.

Þetta kemur fram í Daily Mail í dag en enska blaðið segir að hann hafi svikið fyrrverandi samherja sína um nálægt 400 þúsund pundum, en það nemur um 63 milljónum íslenskra króna.

Sagt er í umfjöllun blaðsins að Cotterill hafi náð peningunum af samherjum sínum í formi lána eða meintra fjárfestinga sem hann hafi síðan notað til að fjármagna eigin eyðslu. Meðal annars dvöl á fimm stjörnu hótelum á Mykonos, Ibiza og í París og gríðarlega umfangsmikið brúðkaup hans og fyrrverandi eiginkonu hans fyrir tveimur árum.

Fram kemur að Cotterill hafi greitt einhverjum til baka en öðrum lítið og sumum ekkert og meðal annars hafi kröfu eins þeirra um endurgreiðslu á 60 þúsund pundum verið hafnað. Hann hafi m.a. útskýrt háttsemi sína með því að hann hafi um skeið þjáðst af þunglyndi og alkóhólisma.

Cotterill, sem er 31 árs gamall, lagði skóna á hilluna fyrir ári og spilaði síðast á Indlandi. Hann lék með enskum félögum í þrettán ár, lengst með Birmingham og Bristol City en einnig m.a. með Wigan, Swansea og Sheffield United. Hann spilaði 24 landsleiki fyrir Wales á árunum 2005 til 2018 og lék 398 deildaleiki á ferlinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert