Klopp hafnaði Manchester United

Jürgen Klopp hafði ekki áhuga á því að taka við …
Jürgen Klopp hafði ekki áhuga á því að taka við Manchester United sumarið 2015. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, hafnaði því að taka við enska úrvalsdeildarliðinu Manchester United árið 2015 en það er Robbie Fowler, fyrrverandi leikmaður Liverpool, sem greinir frá þessu. Klopp tók við Liverpool í október 2015 þegar Norður-Írinn Brendan Rodgers var látinn taka pokann sinn.

Klopp stýrði Borussia Dortmund í Þýskalandi á árunum 2008 til 2015 en lét af störfum eftir tímabilið 2014-15. Hann hafði þá tvívegis gert Dortmund að Þýskalandsmeisturum og einu sinni bikarmeisturum. Klopp gaf það út fyrir tímabilið 2014-15 að það yrði hans síðasta tímabil sem stjóri Dortmund en mörg lið reyndu að semja við hann sumarið 2015.

„Ég tók viðtal við Klopp fyrir Mirror fyrir nokkrum árum síðan,“ sagði Fowler í samtali við TalkSport. „Hann tjáði mér að hann hefði hafnað nokkrum stórum og ríkum félögum eftir að hann hætti hjá Dortmund. Eitt af þessum félögum var Manchester United, hitt var líklegast Real Madrid.“

„Klopp gat valið úr tilboðum en hann var ekki hrifinn af því hvernig bæði Real Madrid og Manchester United voru rekin í gróðaskyni og ákvað þess vegna að hafna því að taka við þessum félögum,“ sagði Fowler meðal annars. Hollendingurinn Louis van Gaal stýrði liði United á þessum tíma en hann lét af störfum ári síðar þegar José Mourinho var ráðinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert