Frá Barcelona til Manchester?

Ivan Rakitic hefur misst sæti sitt í byrjunarliði Barcelona.
Ivan Rakitic hefur misst sæti sitt í byrjunarliði Barcelona. AFP

Ivan Rakitic, miðjumaður spænska knattspyrnufélagsins Barcelona, gæti yfirgefið Börsunga þegar félagaskiptaglugginn verður opnaður á nýjan leik í janúar. Spænskir fjölmiðla greina frá því að Barcelona sé tilbúið að selja króatíska landsliðsmanninn sem hefur ekki átt fast sæti í liði Barcelona á þessari leiktíð.

Raktic hefur aðeins byrjað einn leik í spænsku 1. deildinni á tímabilinu og fjórum sinnum hefur hann komið inn á sem varamaður. Króatinn er á sínu sjötta tímabili hjá Barcelona en hann kom til félagsins frá Sevilla fyrir 18 milljónir evra  sumarið 2014. Raktic hefur fallið aftan í goggunarröðinni á Nývangi eftir komu Frankie De Jong frá Ajax. 

Manchester United hefur mikinn áhuga á Króatanum sem er orðinn 31 árs gamall. Rakitic verður samningslaus í lok júní 2021 og Barcelona er sagt tilbúið að selja hann í janúar á meðan þeir geta ennþá fengið ágætlega háa upphæð fyrir hann. Miðjumaðurinn er í dag metinn á 35 milljónir evra en Inter Mílanó er einnig áhugasamt um leikmanninn.

mbl.is