Hefði elskað að spila fyrir Klopp

Steven Gerrard yfirgaf Liverpool sumarið 2015 eftir sautján ár á …
Steven Gerrard yfirgaf Liverpool sumarið 2015 eftir sautján ár á Anfield. AFP

Steven Gerrard, fyrrverandi fyrirliði enska knattspyrnufélagsins Liverpool og núverandi þjálfari skoska úrvalsdeildarliðsins Rangers, viðurkennir að hann hafi hugsanlega yfirgefið Liverpool ári of snemma. Gerrard yfirgaf Liverpool sumarið 2015 eftir sautján ár á Anfield þar sem hann spilaði 710 leiki fyrir uppeldisfélag sitt.

Brendan Rodgers var knattspyrnustjóri Liverpool þegar Gerrard fór en Rodgers var rekinn í október 2015 og við tók Þjóðverjinn Jürgen Klopp sem hefur stýrt liðinu, allar götur síðan. „Ég hugsa ennþá um það hvort ég hefði átt að taka eitt tímabil í viðtbót ef ég á að vera alveg hreinskilinn,“ sagði Gerrard í samtali við Sky Sports.

„Kannski hefði ég getað bætt mig enn frekar undir stjórn Jürgen Klopp, hver veit? Það þýðir hins vegar ekki að dvelja of lengi við það. Ég tók mína ákvörðun og ég stend með henni. Ég er mjög stoltur af mínum ferli með Liverpool og sé ekki eftir neinu en auðvitað hefði ég elska að spila fyrir Klopp,“ bætti Gerrard við.

mbl.is