Meiðslavandræðin halda áfram hjá United

David de Gea situr á grasinu í leiknum gegn Svíum …
David de Gea situr á grasinu í leiknum gegn Svíum í gærkvöld. AFP

Stuðningsmönnum Manchester United leið ekki vel þegar þeir sáu markvörðinn David de Gea fara meiddan af velli í seinni hálfleik í viðureign Spánverja og Svía í undankeppni EM á Friends Arena í Stokkhólmi í gærkvöld.

Svo virtist vera að De Gea hafi tognað í læri og þurfti hann að fara af velli eftir klukkutímaleik. Roberto Moreno landsliðsþjálfari Spánverja sagði eftir leikinn að De Gea hafi byrjað að finna fyrir þessu í fyrri hálfleik en hafi haldið leik áfram og fengið meðferð í hálfleiknum.

De Gea er því tæpur fyrir leik United gegn Liverpool en erkifjendurnir eigast við í ensku úrvalsdeildinni á Old Trafford á sunnudaginn þar sem Liverpool getur jafnað met Manchester City með því að vinna 18. leik sinn í röð í deildinni.

mbl.is