Pogba og de Gea ekki með gegn Liverpool

David de Gea fór meiddur af velli.
David de Gea fór meiddur af velli. AFP

Manchester United verður án Paul Pogba og David de Gea er liðið mætir Liverpool í stórleik í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta næstkomandi sunnudag vegna meiðsla. Þá verður Jesse Lingard einnig frá vegna meiðsla. 

Pogba var ekki með franska landsliðinu sem mætti Íslandi og Tyrklandi í undankeppni EM og de Gea þurfti að fara af velli er Spánn mætti Svíþjóð í gær. 

Sergio Romero verður í markinu í fyrsta skipti í ensku deildinni á leiktíðinni. Hann hefur leikið í Evrópudeildinni og í deildabikarnum til þessa. 

Pogba hefur misst af fimm af síðustu sjö leikjum United vegna meiðsla í ökkla og fór hann til Dubai í endurhæfingu í landsleikjahléinu. Hann verður hins vegar ekki klár í slaginn.

mbl.is