Kemur framherji frá Real Madrid til Everton?

Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. AFP

Everton er sagt vera með spænska framherjann Mariano Diaz í sigtinu og hefur áhuga á að fá hann til liðs við sig frá Real Madrid þegar opnað verður fyrir félagaskipti í janúar.

Diaz er 26 ára gamall og lék fyrst með Real Madrid árið 2016. Hann var lánaður til franska liðsins Lyon þar sem hann skoraði 18 mörk í 37 deildarleikjum tímabilið 2017 — '18 en sneri aftur til Real Madrid í fyrra.

Spænskir fjölmiðlar greina frá því að Real Madrid sé reiðubúið að láta Diaz fara fyrir 13 milljónir punda í janúar en hann hefur ekkert komið við sögu með liðinu í spænsku deildinni á tímabilinu.

Everton hefur gengið illa að skora á tímabilinu en liðið hefur aðeins skorað sex mörk í átta leikjum í deildinni. Ítalski framherjinn Moise Kean sem Everton keypti fyrir 27 milljónir punda í sumar hefur til að mynda ekki náð að finna netmöskvana frekar en Gylfi Þór Sigurðsson og Marco Silva, stjóri Everton, er sagður vilja styrkja sóknarlínuna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert