Myndin af Pogba og Zidane ekkert að angra Solskjær

Ole Gunnar Solskjær.
Ole Gunnar Solskjær. AFP

Ole Gunnar Solskjær knattspyrnustjóri Manchester United sat fyrir svörum á fréttamannafundi í morgun í aðdraganda leik United og Liverpool sem eigast við á Old Trafford á sunnudaginn.

Meðal annars sem Solskjær var spurður út í var mynd sem birt var af Paul Pogba þar sem hann var að ræða við Zinedie Zidane þjálfara Real Madrid í Dubai en Pogba hefur ítrekað verið orðaður við Madridarliðið.

„Þessi mynd var ekkert að angra mig. Ég hef ekki heyrt Pogba segja að hann vilji ekki vera hér. Pogba er hluti af áætlun okkar til framtíðar. Hann er að jafna sig af meiðslum en þegar þú spilar fyrir Manchester United þá eru teknar myndir af þér og í kjölfarið koma vangaveltur. Þetta er ekkert vandamál fyrir mig,“ sagði Solskjær en Pogba er meiddur og verður fjarri góðu gamni í leiknum á móti Liverpool.

Allar líkur eru á að markvörðurinn David de Gea missi einnig af þeim leik en hann varð fyrir meiðslum í leik með Spánverjum gegn Svíum í undankeppni EM í vikunni.

„Ég reikna ekki með því að hann spili en þetta voru ekki eins slæm meiðsli og óttast var í fyrstu. Ég held að hann verði ekki lengi frá,“ sagði Solskjær sem vonast til að geta teflt bakverðinum Aaron Wan-Bissaka fram í leiknum á móti Liverpool.

mbl.is