Við höfum engu að tapa

Virgil van Dijk.
Virgil van Dijk. AFP

Virgil van Dijk og félagar hans í Liverpool sækja erkifjendurna í Manchester United heim í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á sunnudaginn.

Liverpool hefur byrjað tímabilið á frábæran hátt en liðið hefur unnið alla átta leiki sína og er komið með átta stiga forskot á meistarana í Manchester City. Margir eru þegar búnir að tala um Liverpool sem verðandi meistara.

„Ég held að við höfum engu að tapa. Manchester City er meistari, það vill verja titil sinn en við viljum berjast um hann líka. Pressan á okkur er að verða meiri en hún kemur frá fjölmiðlunum. Þeir elska að setja meiri pressu á okkur og það er eitthvað sem við verðum að takast á við. Mér er alveg sama því ég er ekki að hugsa um hvað annað fólk segir. Ég vil bara vinna alla leiki.

Við þurfum að njóta þess að vera á toppnum og vera fullir sjálfstrausts og sérstaklega með það þegar við vinnum þrátt fyrir að spila ekki okkar besta leik. Það eru svo margir leikir og það er ekki raunhæft að hugsa um titilinn. Við gerum það ekki,“ segir van Dijk í viðtali við Sky Sports.

Manchester United verður án David de Gea og Paul Pogba í leiknum gegn Liverpool á Old Trafford á sunnudaginn.

„Fyrir United er það engin óskastaða að missa aðalmarkvörðinn og einn þann besta í heimi og spila án aðalmiðjumannsins. Það eru vonbrigði fyrir þá en við verðum bara að hugsa um okkur. United vill koma til baka og rétta sinn hlut en við viljum bæta í stigasafn okkar og halda áfram að vinna,“ segir van Dijk.

Liverpool hefur unnið 17 leiki í röð og jafnar met Manchester City með sigri á Old Trafford en Liverpool hefur ekki unnið United á útivelli í fimm ár.

mbl.is