Fimmtán stig skilja erkifjendurna að

Mohamed Salah hefur góða stjórn á knettinum.
Mohamed Salah hefur góða stjórn á knettinum. AFP

Þó að átta leikir séu á dagskránni í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag er leikurinn sem flestir bíða eftir sá eini sem fer fram á morgun. Klukkan 15.30 að íslenskum tíma verður flautað til leiks í viðureign erkifjendanna Manchester United og Liverpool á Old Trafford en munurinn á þessum tveimur liðum hefur sjaldan verið eins mikill og einmitt núna.

Liverpool er fimmtán stigum og ellefu sætum á undan United en þegar átta umferðir eru búnar eru lærisveinar Jürgens Klopps með fullt hús stiga, 24 talsins og með átta stiga forskot á Manchester City á toppi deildarinnar.

Ole Gunnar Solskjær og hans menn í Manchester United hafa hinsvegar aðeins unnið tvo af fyrstu átta leikjunum, eru með 9 stig í tólfta sætinu, og gætu reyndar verið dottnir niður í sautjánda sætið áður en flautað verður til leiks, ef úrslit leikja dagsins í dag verða þeim óhagstæð.

Liverpool hefur ekki sótt þrjú stig á Old Trafford í fimm ár en ætti að eiga meiri möguleika á því á morgun en oftast áður, miðað við framgöngu liðanna það sem af er þessu tímabili.

Óvíst er hvort David de Gea og Paul Pogba verða með United í leiknum vegna meiðsla en Liverpool virðist vera með alla lykilmenn sína tiltæka.

Gylfi Þór Sigurðsson og félagar í Everton hefja umferðina í dag á því að reyna að komast úr fallsæti deildarinnar þegar þeir fá West Ham í heimsókn klukkan 11.30. Jóhann Berg Guðmundsson verður hins vegar fjarri góðu gamni vegna meiðsla þegar Burnley sækir Leicester heim í einum þeirra sex leikja sem hefjast klukkan 14. vs@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert