Gylfi inn­siglaði sig­ur­inn með glæsi­marki

Gylfi Þór Sigurðsson fagnar marki sínu í dag.
Gylfi Þór Sigurðsson fagnar marki sínu í dag. AFP

Everton nældi í sinn fyrsta deildarsigur í fimm leikjum þegar liðið vann 2:0 gegn West Ham á Goodison Park í 9. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu í dag. Bernard kom heimamönnum yfir snemma leiks áður en Gylfi Þór Sigurðsson innsiglaði sigurinn með stórglæsilegu marki undir lok leiks.

Everton var búið að tapa fjórum leikjum í röð og Marco Silva, knattspyrnustjóri liðsins, ákvað að gera fimm breytingar frá síðasta leik. Þeirra á meðal var að setja Gylfa á varamannabekkinn en hann hafði spilað alla leiki Everton til þessa.

Heimamenn voru mikið betri í dag og komust verðskuldað yfir á 17. mínútu þegar Bernard dansaði framhjá varnarmönnum West Ham inn í teig áður en hann kom boltanum í netið úr þröngu færi. Eftir það gekk illa að kreista inn öðru marki þrátt fyrir mörg færi. Richarlison skaut í stöng og Theo Walcott þrumaði í þverslá og fóru ansi margir að halda að heimamenn myndu fá það í bakið að klúðra svo mörgum færum.

Gylfi kom inn á 87. mínútu og aðeins þremur mínútum síðar innsiglaði hann sigurinn með glæsilegu marki, sneri boltann beint upp í vinstra hornið, algjörlega óverjandi. Gylfi er nú búinn að skora 60 mörk í úrvalsdeildinni.

Everton 2:0 West Ham opna loka
90. mín. André Gomes (Everton) fær gult spjald Sparkar niður Haller og fær gult spjald.
mbl.is