Hvetur United til að næla í Kane (myndskeið)

Harry Kane með boltann í leiknum gegn Watford í gær.
Harry Kane með boltann í leiknum gegn Watford í gær. AFP

Roy Keane, fyrrverandi fyrirliði Manchester United, hvetur félagið til að næla í Harry Kane, fyrirliða enska landsliðsins og sóknarmann Tottenham.

„Farið bara í það að ná í Kane. Hann skorar 20 mörk á tímabili með lokuð augun,“ sagði Keane en hann var einn af sérfræðingum Sky Sports á stórleik Manchester United og Liverpool á Old Trafford þar sem 1:1 jafntefli varð niðurstaðan.

Framtíð Kane hjá Tottenham er í óvissu en Lundúnaliðið hefur farið illa af stað og er í 7. sæti deildarinnar með 12 stig þar sem það hefur aðeins náð að vinna þrjá af níu leikjum sínum. Tottenham er þó í betri málum en United en það er í 14. sæti deildarinnar með aðeins 10 stig. Líklegra er að Kane vilji frekar fara til einhvers toppliðs í Evrópu kjósi hann að yfirgefa Tottenham.

 

mbl.is