Liverpool bjargaði stigi á Old Trafford

Victor Lindelöf og Divock Origi bítast um boltann á Old …
Victor Lindelöf og Divock Origi bítast um boltann á Old Trafford í dag. AFP

Manchester United og Liverpool urðu að sættast á 1:1-jafntefli á Old Trafford í níundu umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu í dag. Marcus Rashford kom heimamönnum yfir í fyrri hálfleik í gæðalitlum leik áður en Adam Lallana bjargaði stigi fyrir toppliðið undir lokin.

Liverpool var með fullt hús stiga fyrir viðureign dagsins og þótti líklegt til afreka. United hefur hins vegar hafið leiktíðina illa og aðeins unnið tvo leiki til þessa. Það voru hins vegar heimamenn sem fóru betur af stað og uppskáru mark á 36. mínútu þegar Rashford skoraði af stuttu færi eftir fyrirgjöf Daniel James.

Markið var umdeilt því í aðdraganda þess virtist Victor Lindelöf brjóta á Divock Origi. Eftir stutta bið var ákveðið að dæma markið gott og gilt eftir athugun myndbandsdómara. Rétt fyrir hálfleik héldu gestirnir að þeirr væru búnir að jafna þegar Sadio Mané lék Lindelöf grátt í vörninni og skoraði fram hjá David de Gea í marki United en markið var dæmt af þar sem Mané handlék knöttinn.

Liverpool var mikið með boltann í síðari hálfleik og reyndi að kreista fram jöfnunarmark og kom það á 85. mínútu þegar heimamenn sofnuðu á verðinum í vörninni. Andrew Robertson gaf fyrir frá vinstri, Roberto Firmino lét boltann fara og Lallana, sem lúrði á fjærstönginni einn og óvaldaður, skoraði af öryggi.

Jafntefli niðurstaðan og Liverpool áfram á toppnum, nú með 25 stig, sex stigum fyrir ofan Manchester City. United er í 13. sæti með tíu stig.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Man. Utd 1:1 Liverpool opna loka
90. mín. Fimm mínútur í uppbótartíma.
mbl.is