Liverpool getur jafnað tvö met í dag

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool.
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool. AFP

Liverpool getur í dag jafnað met Manchester City takist liðinu að vinna erkióvinina í Manchester United en liðin eigast við á Old Trafford klukkan 15.30.

Liverpool hefur unnið 17 leiki í röð í ensku úrvalsdeildinni og með sigri í dag jafnar það met Manchester City sem vann 18 leiki í röð tímabilið 2017 — '18.

Liverpool getur líka jafnað met Chelsea í ensku úrvalsdeildinni með því að vinna fyrstu níu leiki sína í deildinni á tímabilinu en það gerði Chelsea á leiktíðinni 2005 — '06 undir stjórn José Mourinho.

Liverpool hefur ekki tekist að vinna Manchester United á Old Trafford í fimm leikjum í röð en Liverpool hrósaði síðast útisigri gegn United árið 2014 en menn eins og Steven Gerrard og Luis Suárez léku þá með liðinu.

Manchester United er í 14. sæti deildarinnar með 9 stig og er aðeins með einu stigi meira en Newcastle sem er í fallsæti.

mbl.is