Það munu ekki líða 30 ár þar til við vinnum titilinn

Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United.
Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United. AFP

Eins og jafnan áður ríkir mikil spenna fyrir leik Manchester United og Liverpool en þessi sigursælustu lið Englands eigast við í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á Old Trafford í dag.

Það er himinn og haf á milli liðanna. Liverpool hefur unnið alla átta leiki sína og er 15 stigum á undan Manchester United, sem er í 14. sæti deildarinnar, aðeins einu stigi frá fallsæti.

Það eru liðin 29 ár síðan Liverpool varð síðast Englandsmeistari en stuðningsmenn Liverpool eru bjartsýnir á að eyðimerkurgöngunni ljúki í vor og skyldi engan undra enda hafa lærisveinar Jürgens Klopp átt frábæru gengi að fagna.

Byrjun Manchester United á tímabilinu undir stjórn Ole Gunnars Solskjærs er sú versta í 30 ár og takist liðinu ekki að vinna í dag verður það versta byrjun liðsins í deildinni frá tímabilinu 1986 — '87, tímabilið sem Sir Alex Ferguson tók við eftir að Ron Atkinson var rekinn.

„Ég er sannfærður um að við komum til baka og vinnum deildina og ég er viss um að það muni ekki líða 30 ár þar til vinnum titilinn,“ segir Solskjær.

„Sigur á móti Liverpool getur snúið tímabilinu fyrir okkur. Góð frammistaða og góð úrslit fyrir okkur í þessum leik getur breytt sjálfstrausti leikmanna,“ segir Solskjær.

Solskjær tók við stjórastarfinu hjá United af José Mourinho í desember á síðasta ári. Liðið vann tíu af 11 fyrstu leikjunum undir hans stjórn en hefur aðeins unnið fimm af 21 leik frá því Norðmaðurinn var ráðinn til frambúðar í mars á þessu ári.

Flautað verður til leiks á Old Trafford klukkan 16.30.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert