Við áttum að vinna þennan leik

Marcus Rashford fagnar hér marki sínu á Old Trafford í …
Marcus Rashford fagnar hér marki sínu á Old Trafford í dag. AFP

„Við áttum að taka þrjú stig úr þessum leik, mér fannst þeir ekki nógu góðir til að ná jafntefli en svona er fótboltinn,“ sagði súr Marcus Rashford, leikmaður Manchester United, við Sky Sports strax eftir 1:1-jafntefli við Liverpool á Old Trafford í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag.

Rashford sjálfur kom United yfir í fyrri hálfleik gegn toppliðinu en Liverpool bjargaði stigi undir lok leiks þökk sé marki Adam Lallana. Toppliðið var langt frá sínu besta í leiknum en Rashford segir sitt lið geta tekið jákvæða hluti með sér í næstu verkefni.

„Þetta var stórt tækifæri í dag en við náðum ekki að nýta okkur það. Núna þurfum við að vinna leikinn í næstu viku og koma okkur almennilega af stað. Stundum erum við óheppnir í leikjum, það er mjótt á milli í þessu. Við getum samt spilað miklu betur en við erum að gera, sérstaklega í sókn.“

mbl.is