Salah í kapphlaupi við tímann

Mohamed Salah fór meiddur af velli í sigri Liverpool gegn …
Mohamed Salah fór meiddur af velli í sigri Liverpool gegn Leicester 5. október. AFP

Mohamed Salah, sóknarmaður enska knattspyrnufélagsins Liverpool, var ekki með liðinu í gær þegar Liverpool gerði 1:1-jafntefli við Manchester United á Old Trafford í Manchester. Salah meiddist á ökkla í leik Liverpool og Leicester í ensku úrvalsdeildinni í byrjun október og hefur ekki enn þá jafnað sig af meiðslunum.

Jürgen Klopp, stjóri Liverpool, sagði í viðtali fyrir leik Liverpool og United í gær að það væri óvíst hvort Salah yrði klár í slaginn gegn Genk í Meistaradeildinni á miðvikudaginn. „Mo var ekki tilbúinn og þess vegna spilaði hann ekki gegn United,“ sagði Klopp. „Hann gat ekki æft með liðinu í aðdraganda leiksins.“

„Ég veit ekki alveg hvaðan þær sögusagnir komu að hann væri klár í leikinn því það var nánast aldrei möguleiki á því að hann myndi spila. Hann gæti verið klár á miðvikudaginn en það er of snemmt að segja til um það að svo stöddu,“ sagði Klopp enn fremur. Liverpool er með 3 stig í E-riðli Meistaradeildarinnar eftir tvo leiki, einu stigi minna en topplið Napoli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert