Sama sagan ár eftir ár

Jürgen Klopp var pirraður eftir leik Manchester United og Liverpool …
Jürgen Klopp var pirraður eftir leik Manchester United og Liverpool í gær. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, var svekktur eftir 1:1-jafntefli liðsins gegn Manchester United á Old Trafford í Manchester í gær. Marcus Rashford kom United yfir í fyrri hálfleik en Adam Lallana jafnaði metin fyrir Liverpool á 84. mínútu og þar við sat.

Markið sem Rashford skoraði var umdeilt þar sem brotið var á Divock Origi, sóknarmanni Liverpool, í aðdraganda marksins. Þá skoraði Sadio Mané mark stuttu síðar sem var réttilega dæmt af þar sem boltinn fór í hönd Mané. Í báðum dómum var stuðst við myndbandsdómgæslu.

„Í ár, á síðasta ári og þarsíðasta ári gera þeir ekkert annað en að verjast,“ sagði Klopp í samtali við blaðamenn en þýski stjórinn hefur aldrei fagnað sigri á Old Trafford. „Þannig er það bara og ég er ekki að reyna að gagnrýna neitt, þetta er bara bláköld staðreynd. Þegar fólk talar um stórleiki Liverpool og United þá vilja bæði lið vinna.“

„Það hefur ekki verið þannig undanfarin ár. Við viljum vinna. Þetta eru leikir sem leikmenn eru ekki í vandræðum með að gíra sig upp fyrir. Þeir voru með átta leikmenn fyrir aftan boltann nánast allan tímann og United er gott lið. Að sama skapi áttum við ekki okkar besta dag og við getum gert miklu betur,“ sagði Klopp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert