Tætti Maguire í sig

Harry Maguire er ekki merkilegur varnarmaður að mati Rafaels van …
Harry Maguire er ekki merkilegur varnarmaður að mati Rafaels van der Vaart. AFP

Rafael van der Vaart, fyrrverandi fyrirliði hollenska landsliðsins, virðist ekki hafa mikið álit á Harry Maguire, varnarmanni Manchester United. Maguire átti ágætisleik fyrir United þegar liðið gerði 1:1-jafntefli við Liverpool á Old Trafford í ensku úrvalsdeildinni í gær.

Maguire kom til United frá Leicester í sumar en enska félagið borgaði 80 milljónir punda fyrir miðvörðinn og gerði hann þar með að dýrasta varnarmanni heims. „Hann getur eitthvað en ef hann kostar 80 milljónir punda þá kostar Virgil van Dijk 300 milljónir,“ sagði Van der Vaart í samtali við Ziggo Sport eftir leikinn á Old Trafford.

„Ef ég er á leiðinni í bumbubolta á sunnudegi eru alla vega þrír leikmenn þar sem geta gert sömu hluti og Maguire. Ég er ekki að grínast þegar ég segi þetta. Það er kjánalegt að segja svona hluti því hann spilar með Manchester United en þetta er í alvörunni mín skoðun á honum sem varnarmanni.“

„Það er fyndið að segja þetta núna því ég gagnrýndi hann líka eftir leik Hollands og Englands í Þjóðadeildinni þegar ég var sérfræðingur fyrir hollenska ríkissjónvarpið. England tapaði 3:1 og Maguire var versti maður vallarins þar. Tveimur mánuðum síðar keypti United hann svo fyrir 80 milljónir punda. Ótrúleg kaup,“ bætti van der Vaart við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert