Hermann á leið til Southend með Campbell

Hermann Hreiðarsson verður aðstoðarmaður Sol Campbell hjá Southend samkvæmt fréttum …
Hermann Hreiðarsson verður aðstoðarmaður Sol Campbell hjá Southend samkvæmt fréttum á Englandi. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Sol Campbell er að taka við sem knattspyrnustjóri enska C-deildarfélagsins Southend United en það er Sky Sports sem greinir frá þessu. Campbell hefur verið án starfs síðan hann hætti  sem stjóri D-deildarliðsins Macclesfield Town í ágúst.

Kevin Bond hætti með Southend í september og hefur félagið því verið án knattspyrnustjóra síðan. Enskir fjölmiðlar greina frá því að Hermann Hreiðarsson, fyrrverandi landsliðsfyrirliði, verði aðstoðarmaður Campbell hjá Southend.

Hermann var aðstoðarmaður hjá Campbell hjá Macclesfield Town í stuttan tíma. Þá greina enskir fjölmiðlar frá því að Andy Cole, fyrrverandi framherji Manchester United, muni einnig koma inn í þjálfarateymi félagsins.

Gengi Southend United á þessari leiktíð hefur verið afleitt en liðið er í 22. sæti eða næst neðsta sæti ensku C-deildarinnar með 5 stig. Liðið hefur tapað 10 leikjum, unnið einn og gert tvö jafntefli í fyrstu þrettán leikjum sínum.

mbl.is