Sorglegt fyrir stuðningsmenn Tottenham

Það gengur ekkert hjá enska knattspyrnufélaginu Tottenham þessa dagana en liðið rétt slapp með jafntefli á heimavelli gegn botnliði Watford í ensku úrvalsdeildinni um helgina. Dele Alli skoraði jöfnunarmark Tottenham á 86. mínútu eftir mikinn vandræðagang í vörn Watford og liðin enduðu á að skipta með sér stigunum.

Tottenham er í sjöunda sæti deildarinnar með 12 stig eftir fyrstu níu umferðirnar, 13 stigum á eftir toppliði Liverpool. Tottenham er án sigurs í síðustu þremur leikjum sínum í öllum keppnum en síðasti sigurleikur liðsins kom gegn Southampton á Tottenham Hotspur Stadium 28. september.

„Þetta er ótrúlega sorglegt fyrir stuðningsmenn Tottenham,“ sagði Margrét Lára Viðarsdóttir í sjónvarpsþættinum Vellinum á Síminn Sport á sunnudaginn síðasta. „Þetta er lið sem maður er búinn að vera að bíða eftir að tæki þetta stóra skref og myndi veita öðrum liðum alvörukeppni um Englandsmeistaratitilinn.“

„Þeir hafa mannskapinn í að berjast um titla og lengi vel fannst manni þeir vera með knattspyrnustjórann í það líka. Það lítur hins vegar allt út fyrir það að hann sé eitthvað að missa tökin þarna. Það er annaðhvort það eða liðið er í mikilli lægð sem þeir verða að rífa sig upp úr sem allra fyrst,“ bætti Margrét Lára við.

Það er þungt yfir Mauricio Pochettino knattspyrnustjóra Tottenham þessa dagana.
Það er þungt yfir Mauricio Pochettino knattspyrnustjóra Tottenham þessa dagana. AFP
mbl.is