Varð sterkari einstaklingur á Íslandi

George Baldock, 26 ára gamall leikmaður enska knattspyrnufélagsins Sheffield United, hefur byrjað alla níu leiki nýliðanna í ensku úrvalsdeildinni á þessari leiktíð. Baldock var á sínum stað í byrjunarliði Sheffield United sem vann frábæran 1:0-sigur gegn Arsenal í ensku úrvalsdeildinni í gær en árið 2012 lék hann sem lánsmaður hjá ÍBV í Vestmannaeyjum, þá 19 ára gamall.

Baldock gerði eins mánaðar lánssamning við ÍBV í maí 2012 en hann endaði á að eyða öllru sumrinu með ÍBV í Eyjum. Hann kom til félagsins frá MK Dons en í fyrstu var honum ætlað að fylla skarð Gunnars Más Guðmundssonar og Andra Ólafssonar sem þá voru að glíma við meiðsli. Magnús Gylfason var þjálfari ÍBV á þessum tíma. „Ég mæli 100% með þessu fyrir leikmenn sem eru ekki að fá að spila,“ sagði Baldock í viðtali sem birtist í Vellinum á Síminn Sport á sunnudaginn síðasta en þar ræddi hann dvöl sína á Íslandi.

„Þú græðir ekkert á því að mæta bara á æfingar hjá þínu liði, án þess að fá tækifæri til þess að spila alvörufullorðinsbolta. Ég spilaði líka í ensku utandeildinni sem var fínt en dvölin á Íslandi breytti mér sem knattspyrnumanni. Ég varð ekki bara betri leikmaður eftir dvölina því ég varð líka sterkari einstaklingur í Vestmannaeyjum. Það herti mig að vera í burtu frá fjölskyldu og vinum og ég þurfti að læra að treysta meira á sjálfan mig.“

„Ég vil hvetja alla unga leikmenn til þess að prófa eitthvað þessu líkt, sérstaklega ef þeir eru ekki að fá þann spilatíma sem þeir þurfa. Gæðin á Íslandi komu mér á óvart en það kom mér líka á óvart að margir liðsfélagar mínir unnu allan daginn, aðallega í fiski, og mættu svo á æfingu klukkan 17. Það eina sem ég gerði á daginn var að bíða eftir æfingu síðar um daginn,“ sagði Baldock en viðtalið í heild sinni má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.

George Baldock hefur byrjað alla leiki Sheffield United í ensku …
George Baldock hefur byrjað alla leiki Sheffield United í ensku úrvalsdeildinni á þessari leiktíð. AFP
George Baldock í leik með ÍBV árið 2012.
George Baldock í leik með ÍBV árið 2012. mbl.is/Golli
mbl.is