Vísað út af Old Trafford vegna kynþáttaníðs

Trent Alexander-Arnold varð fyrir kynþáttaníði af hálfu stuðningsmannsins.
Trent Alexander-Arnold varð fyrir kynþáttaníði af hálfu stuðningsmannsins. AFP

Ónefndum stuðningsmanni enska knattspyrnufélagsins Manchester United var vísað út af Old Trafford, heimavelli liðsins, vegna kynþáttaníðs í leik United og Liverpool á sunnudaginn. Sky Sports greinir frá því að stuðningsmaðurinn hafi verið með kynþáttaníð í garð Trents Alexanders-Arnold, bakvarðar Liverpool.

Stuðningsmaðurinn sat í Streetford End-stúkunni en Sky greinir frá því að stuðningsmenn í kringum hann hafi látið öryggisverði á Old Trafford vita af athæfi stuðningsmannsins. Hann var handtekinn skömmu síðar og var honum svo vísað af leikvanginum af öryggisvörðum og lögreglu.

Leiknum lauk með 1:1-jafntefli en stuðningsmaðurinn gæti átt von á lífstíðarbanni frá Old Trafford. „Viðkomandi stuðningsmanni var vísað af vellinum. Málið er í rannsókn og er það forgangsatriði hjá félaginu að klára þetta sem fyrst. Rasismi og hvers kyns fordómar verða aldrei liðnir hjá Manchester United,“ segir í tilkynningu frá félaginu.

mbl.is