Blanda af gamla og nýja skólanum

Knattspyrnukappinn Jóhann Berg Guðmundsson verður í skemmtilegu viðtali á Síminn Sport á morgun fyrir leik Burnley og Chelsea í ensku úrvalsdeildinni. Leikurinn fer fram á Turf Moor, heimavelli Burnley, og hefst klukkan 16:30 en Tómas Þór Þórðarson, ritstjóri enska boltans, settist niður með kantmanninum á dögunum og ræddi við hann á rólegu nótunum.

Viðtalið verður sýnt klukkan 15:30 á morgun en Jóhann Berg verður ekki með liði Burnley gegn Chelsea vegna meiðsla sem hann varð fyrir í leik Íslands og Frakklands á Laugardalsvelli í undankeppni EM 2020 þann 11. október síðastliðinn. Jóhann Berg hefur byrjað fjóra leiki Burnley á þessari leiktíð þar sem hann hefur skorað eitt mark.

„Hann er einhver blanda af gamla- og nýja skólanum,“ sagði Jóhann Berg þegar hann var spurður út í knattspyrnustjóra sinn hjá Burnley, Sean Dyche. „Það má ekki gefa neitt eftir hjá honum, hvorki á æfingum né í leikjum. Menn eiga að hlaupa meira en andstæðingurinn og það á að vinna fleiri tæklingar en mótherjinn.“

„Ég veit samt ekki hvort það sé eitthvað viðhorf tengt gamla skólanum því þetta er bara það viðhorf sem maður á að vera með gagnvart fótbolta. Þú þarft að hlaupa meira en andstæðingurinn og vinna fleiri bolta ef þú ætlar að vinna einhverja fótboltaleiki. Hann er góður í taktík, les andstæðinginn vel og við vitum hvernig fótbolta við viljum spila, bætti Jóhann Berg við en brot úr viðtalinu má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.

Sean Dyche er harður í horn að taka og krefst …
Sean Dyche er harður í horn að taka og krefst mikils af leikmönnum sínum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert