Mourinho til Arsenal? - Fundaði með Sanllehi

Jose Mourinho bíður eftir rétta tækifærinu til að snúa aftur …
Jose Mourinho bíður eftir rétta tækifærinu til að snúa aftur í boltann. AFP

Unai Emery hefur aðeins 1-2 leiki til þess að snúa við gengi Arsenal og forðast fallöxina. Að öðrum kosti bendir margt til þess að Jose Mourinho snúi aftur í enska boltann og taki við Lundúnafélaginu, samkvæmt hinum virta miðli The Times.

Duncan Castles skrifar greinina um málið í The Times en hann hefur í gegnum tíðina virst þekkja vel til í málefnum Mourinho. Hann fullyrðir að Portúgalinn hafi snætt máltíð með Raul Sanllehi, íþróttastjóra Arsenal, í síðustu viku og farið yfir stöðuna. Mun Sanllehi hafa hrifist mjög af því sem Mourinho hafði að segja um Arsenal.

Samkvæmt The Times vill Arsenal fá reynslumikinn stjóra sem þekkir vel til í ensku úrvalsdeildinni, fari svo að hlutirnir breytist ekki hið snarasta til hins betra hjá Emery sem sá sína menn gera 1:1-jafntefli við Wolves á heimavelli í gær, eftir tapið gegn Liverpool í deildabikarnum í liðinni viku. Arsenal er í 5. sæti úrvalsdeildarinnar með 17 stig, 14 stigum frá toppliði Liverpool.

Mourinho hefur ekki stýrt liði síðan að hann var látinn fara frá Manchester United fyrir ári síðan. Hann er sagður bíða eftir rétta tækifærinu og mun hafa rætt við Florentino Perez, forseta Real Madrid, um hugsanlega endurkomu en þeir sem standa Mourinho næst hafa ráðlagt honum að taka frekar tilboði Arsenal, fái hann slíkt. Í grein The Times segir að það hjálpi Mourinho að samband hans við Mesut Özil hafi verið gott í Real Madrid en þessi hæstlaunaði leikmaður Arsenal hefur ekki átt upp á pallborðið hjá Emery, nokkuð sem að ergir forráðamenn félagsins.

mbl.is