Eiður hrósar félaga sínum - Ekki neyddur til að gera þetta

„Það er örugglega skrýtið fyrir Eið að tala um félaga sinn hérna en ég bara get ekki gert neitt annað en að hrósa honum,“ segir Freyr Alexandersson aðstoðarlandsliðsþjálfari. Þeir Eiður Smári Guðjohnsen ræddu við Tómas Þór Þórðarson um Chelsea í Vellinum á Símanum Sport í gær.

„Ég get ekki gert neitt annað en að hrósa honum. Ekki bara fyrir að ná í góð úrslit. Þeir eru að spila góðan fótbolta, hann er að treysta ungum mönnum og hann er klárlega að ná því besta út úr þeim,“ segir Freyr.

Chelsea vann Watford 2:1 á útivelli á laugardaginn og hefur nú unnið sjö útileiki í röð eftir tapið gegn Manchester United í byrjun tímabils:

„Við erum svolítið upptekin af því að Chelsea hafi ekki getað keypt leikmenn. Chelsea er samt með reynda leikmenn á bekknum. Frank Lampard er ekki neyddur til að spila ungum leikmönnum. Hann gerir það bara,“ segir Eiður.

Umræðurnar um Chelsea úr Vellinum má sjá í myndskeiðinu hér að ofan.

mbl.is