Hræðileg teikning, kolröng afstaða og dómur

Eiður Smári Guðjohnsen og Freyr Alexandersson furðuðu sig eins og fleiri á því að myndbandsdómari skyldi telja mark Roberto Firmino gegn Aston Villa ólöglegt. Markið var dæmt af vegna rangstöðu en Liverpool vann þó 2:1-sigur að lokum.

„Einhvern tímann heyrði ég það nú að þegar það er vafamál þá ættu  þau alltaf að falla með framherjanum,“ sagði Eiður um „rangstöðumarkið“. „Svo þegar ég sé þetta svona þá get ég ekki fyrir mitt litla líf, þótt ég myndi setja á mig gleraugun, séð að hann sé rangstæður. Bara fyrirgefið, ég sé það ekki. Kannski er eitthvað verið að hrófla við línunni þarna eins og þú segir, en það er orðið rosalega þreytt og leiðinlegt þegar spjall okkar eftir helgina fer að snúast svona mikið um VAR,“ sagði Eiður. Freyr tók heils hugar undir það um leið og rýnt var í mynd af atvikinu:

„Þessi teikning er hræðileg, afstaðan á myndinni er kolröng og þetta er bara rangur dómur. Þegar VAR er farið að taka rangar afstöður þá er það mjög slæmt. Þetta getur ekki haft þann tilgang að menn séu að leita eftir mistökum, að leita eftir einhverju til að geta tekið ákvarðanir sem eru svo rangar. Þetta er hræðilega vond þróun, og ég held að allir í fótboltanum hafi áhyggjur af þessu,“ sagði Freyr.

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, gat ekki annað en hlegið að atvikinu en ummæli hans má einnig sjá í myndskeiðinu hér að ofan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert