Klopp boðar breytingar

Jürgen Klopp knattspyrnustjóri Liverpool.
Jürgen Klopp knattspyrnustjóri Liverpool. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, mun líklega gera einhverjar breytingar á liði sínu fyrir leikinn gegn belgísku meisturunum í Genk en liðin eigast við í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu á Anfield annað kvöld.

Klopp sagði á fréttamannafundi í kvöld en allir þeir leikmenn sem tóku þátt í sigurleiknum á móti Aston Villa séu klárir í slaginn en hann boðar þó breytingar á liði sínu.

„Við munum vonandi fá inn frískar fætur. Það er ljóst að við viljum það en það er ekki eins og við munum gera svo margar breytingar að þið kannist ekki við liðið og hugsið; hver er þetta?,“ sagði Klopp en Liverpool er í öðru sæti í riðlinum með sex stig, er stigi á eftir Napoli, en Genk vermir botnsætið með aðeins eitt stig. Liverpool tekur svo á móti Manchester City í toppslag ensku úrvalsdeildarinnar á Anfield á sunnudaginn.

Joel Matip, Xherdan Shaqiri og Nathaniel Clyne eru áfram á meiðslalistanum hjá Liverpool að sögn Klopps.

 

mbl.is