Ólga fyrir stórleikinn - Segir Mané ekki dýfa sér

Jürgen Klopp ræddi við blaðamenn í gær.
Jürgen Klopp ræddi við blaðamenn í gær. AFP

„Ég er ekki í skapi til þess að ræða um Manchester City,“ sagði Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, sem vill einbeita sér að leik liðsins við Genk í Meistaradeild Evrópu í kvöld áður en talið berst að stórleiknum við City næsta sunnudag.

Klopp hafði verið spurður út í ummæli Pep Guardiola, stjóra City, sem á laugardaginn sakaði Liverpool-menn um leikaraskap. „Stundum eru það dýfur, stundum er það hæfileikinn til að skora ótrúleg mörk á lokamínútunni,“ sagði Guardiola.

Mané skoraði sigurmark Liverpool á laugardaginn í uppbótartíma en hafði fyrr í leiknum fengið áminningu fyrir leikaraskap.

„Ég er ekki viss um hvort að hann [Guardiola] var að tala um Sadio eða okkur sem lið,“ sagði Klopp á blaðamannafundi í gær.

„Ég heyrði aldrei Sadio nefndan og veit ekki hvernig hann gat vitað svona fljótt um eitthvað sem gerðist í leiknum,“ sagði Klopp, en Guardiola tjáði sig rétt eftir að leikjum Liverpool og City lauk á laugardaginn.

„Ég get fullyrt að Sadio dýfir sér ekki. Það kom upp atvik í leiknum við Aston Villa þar sem hann fann snertingu og fór niður, kannski var það ekki víti en það var snerting. Það er ekki eins og að hann hafi hoppað yfir fót andstæðingsins og fallið niður,“ sagði Klopp.

mbl.is