Óvíst með þátttöku Ederson gegn Liverpool

Pep Guardiola klappar bakverðinum Kyle Walker á kollinn eftir að …
Pep Guardiola klappar bakverðinum Kyle Walker á kollinn eftir að hann skaust í markið. AFP

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, var ekki sérlega sáttur eftir 1:1-jafntefli sinna manna gegn Atalanta á útivelli í Meistaradeild Evrópu í kvöld. City komst í 1:0 og fékk gott tækifæri til að komast í 2:0 en Gabriel Jesus nýtti ekki vítaspyrnu. 

„Í þessari keppni verður þú að nýta færin þín. Við spiluðum mjög vel í fyrri hálfleik en seinni hálfleikurinn var erfiðari. Það var erfitt að spila með Walker í marki,“ sagði Guardiola við BT sport en bakvörðurinn Kyle Walker þurfti að spila lokamínúturnar í marki hjá City þar sem Ederson fór meiddur út af og Claudio Bravo fékk rautt spjald. 

Óvissa er með þátttöku Ederson í stórleiknum gegn Liverpool í ensku úrvalsdeildinni á sunnudaginn kemur. „Ég veit ekki stöðuna á því núna,“ sagði Guardiola. 

mbl.is