Liverpool líklega besta lið heims í dag

Pep Guardiola.
Pep Guardiola. AFP

Pep Guardiola knattspyrnustjóri Manchester City segir að líklega sé Liverpool besta lið heims um þessar mundir en liðin eigast við í sankölluðum risaslag í ensku úrvalsdeildinni á Anfield á sunnudaginn.

City er sex stigum á eftir Liverpool í öðru sæti deildarinnar en lærisveinar Jürgens Klopps hafa átt frábæru gengi að fagna, hafa unnið tíu leiki og gert eitt jafntefli.

„Ég sagði eftir síðasta tímabili þar sem við unnum deildina að Liverpool hafi verið erfiðasti keppinauturinn sem ég hef mætt á mínum ferli í baráttu um að vinna titil. Þetta var eitt stærsta afrekið sem City hefur náð. Nú er það sama uppi á teningnum en líklega er Liverpool núna besta lið heims,“ segir Guardiola.

Liverpool er ósigrað á Anfield í 45 leikjum í röð og Guardiola er meðvitaður um hversu öflugur heimavöllur Liverpool er.

„Anfield er örugglega erfiðasti völlurinn heim að sækja í allri Evrópu en úrslitin í þessari deild ráðast ekki í nóvember. Liverpool tapaði aðeins einum leik í deildinni á síðasta tímabili. Nú er það taplaust og það mun ekki tapa mörgum leikjum en tímabilið er langt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert