Óttast aðra árás Liverpoolmanna

Liðsrúta Manchester City fékk að finna fyrir því á Meistaradeildarkvöldi …
Liðsrúta Manchester City fékk að finna fyrir því á Meistaradeildarkvöldi í apríl í fyrra. AFP

Það styttist óðum í stórleik tímabilsins til þessa í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta þegar Liverpool og Manchester City mætast á Anfield síðdegis á sunnudaginn.

Enska blaðið The Guardian greinir frá því að City-menn óttist að stuðningsmenn Liverpool ráðist að rútu liðsins þegar hún komi til borgarinnar, líkt og gerðist á þarsíðustu leiktíð. Hafa Englandsmeistararnir farið fram á að tryggt verði að liðið geti með öruggum hætti komist á Anfield.

Á samfélagsmiðlum hafa birst póstar þar sem stuðningsmenn Liverpool eru hvattir til þess að taka með sér blys, bjórglös, fána og veifur, og stilla sér upp við Anfield Road alveg að leikvanginum.

Þegar liðin mættust í Liverpool í apríl 2018, í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu, köstuðu nokkrir svartir sauðir úr stuðningsmannahópi Liverpool flöskum og blysum í liðsrútu Manchester City. Engan leikmanna eða starfsliðs sakaði þó. Þegar liðin mættust í 0:0-jafntefli í október í fyrra urðu engin vandræði en City-menn eru engu að síður varir um sig og verður því haldið leyndu hvaða leið liðið fer á leikinn á sunnudaginn.

mbl.is