Pylsusalarnir verða líka að vera í toppformi

Jürgegn Klopp knattspyrnustjóri Liverpool.
Jürgegn Klopp knattspyrnustjóri Liverpool. AFP

Jürgen Klopp knattspyrnustjóri Liverpool segir að leikmenn sínir verði að sýna hugrekki þegar þeir etja kappi við Manchester City í stórleik 12. umferðar ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu á Anfield á sunnudaginn.

Liverpool er með sex stiga forskot á Englandsmeistarana í toppsæti deildarinnar en Liverpool er ósigrað í deildinni á tímabilinu, hefur unnið tíu leiki og gert eitt jafntefli.

„Þetta er stórleikur, tveggja virkilega góðra liða sem mætast á Anfield í flóðljósum. Þetta verður góður fótboltaleikur en við verðum að vera hugrakkir á móti Manchester City. Við þurfum að spila okkar besta leik og allir á vellinum verða að vera í toppformi, jafnvel strákarnir sem selja heitu pylsurnar,“ sagði Klopp á fréttamannafundi í dag.

Liverpool hefur ekki tapað á Anfield í 45 leikjum í röð í ensku úrvalsdeildinni og City hefur unnið 11 af síðustu 12 útileikjum sínum þar sem liðið hefur skorað 30 mörk.

Líkleg byrjunarlið:

Liverpool: Alisson, Robertson, Lovren, Alexander-Arnold, Van Dijk, Fabinho, Wijnaldum, Henderson, Mane, Firmino, Salah.

Manchester City: Bravo, Stones, Walker, Otamendi, De Bruyne, Mendy, Fernandinho, Bernaldo Silva, Gundogan, Sterling, Agüero.

Flautað verður til leiks á Anfield klukkan 16.30 á sunnudaginn.

mbl.is