Tekst Gylfa að endurtaka leikinn? (myndskeið)

Gylfi Þór fagnar marki sínu gegn West Ham.
Gylfi Þór fagnar marki sínu gegn West Ham. Ljósmynd/twitter-síða Everton

Mjög líklegt er að Gylfi Þór Sigurðsson komi aftur inn í byrjunarlið Everton þegar liðið sækir Southampton heim í sannkölluðum botnslag í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á morgun.

Gylfi hefur mátt sætta sig við að byrja á bekknum í síðustu fjórum leikjum Everton en þar sem André Gomes er úr leik vegna meiðsla er reiknað með að Gylfi komi inn í liðið á nýjan leik.

Gylfi hefur aðeins náð að skora eitt mark í deildinni á tímabilinu en hann skoraði seinna markið í 2:0 heimasigri á móti West Ham. Gylfi skoraði glæsilegt mark fyrir Everton á St.Marys fyrir tæpum tveimur árum en markið má sjá í meðfylgjandi myndskeiði.

Southampton er í fallsæti en liðið er í þriðja neðsta sæti deildarinnar með 8 stig en Everton er sætinu fyrir ofan með 11 stig.

Gengi Everton á útivelli hefur verið ansi dapurt en því hefur ekki tekist að vinna í síðustu átta útileikjum og hefur tapað fjórum í röð. Dominic Calvert-Lewin er eini leikmaður Everton sem hefur náð að skora í útileikjum Everton á tímabilinu en Everton hefur tapað fimm af síðustu sex leikjum á útivelli á móti Southampton.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert