Farið í rass og - hala!

Granit Xhaka og Pierre-Emerick Aubameyang nota eitt af fáum tækifærum …
Granit Xhaka og Pierre-Emerick Aubameyang nota eitt af fáum tækifærum haustsins til að fagna með ungstirninu Bukayo Saka. AFP

Fáum sögum fer af því að maður hafi gengið af sér fyrirliðastöðu hjá knattspyrnufélagi í bókstaflegri merkingu eins og Svisslendingurinn Granit Xhaka gerði í leik liðs síns, Arsenal, gegn Crystal Palace á dögunum. Eins og við þekkjum þá var hann kallaður af velli í miðjum klíðum og bauluðu áhangendur Arsenal þá eins og Bjarnastaðabeljurnar forðum enda Xhaka ekki í hópi vinsælustu leikmanna liðsins, sem átt hefur í basli í ensku úrvalsdeildinni nú á haustmisseri. Kappinn brást vondur við, sjálfsagt lítt um kúabúskap gefið, baðaði út öllum öngum, reif sig úr keppnistreyjunni og sagði gestum í samkvæminu að fara í rass og rófu. Eða öllu heldur í rass og hala.

Mikið moldviðri hlaust af og var knattspyrnustjóri Arsenal, Spánverjinn Unai Emery, hvattur til að rífa fyrirliðabandið strax af Xhaka, meðal annars af virtum sparkskýrendum, enda væri slík framganga ekki sönnum leiðtoga sæmandi. Emery gaf sér rúma viku, enda maður ákvarðanafælinn, svo sem dæmin sanna, til að komast að nákvæmlega þessari niðurstöðu. Leysti Xhaka undan skyldum sínum og réð Gabonmanninn Pierre-Emerick Aubameyang til starfans í staðinn.

Spurði salinn

Sú tímalengd var þó hátíð hjá því hvað það tók Spánverjann langan tíma í haust að útnefna nýjan fyrirliða eftir að óyndi greip þann gamla, Frakkann Laurent Koscielny, sem harðneitaði að fara með liðinu í æfingaferð til útlanda og heimtaði sölu. Hafði það á endanum í gegn. Emery velti málinu aftur á bak og áfram fyrir sér vikum saman og á endanum voru greidd um það atkvæði, eins og um fletið handa skáldinu í gamla daga, þar sem kjörgengir voru allir leikmenn Arsenal. Bar Xhaka þar sigur úr býtum. Það var sumsé eftir að hafa horft djúpt í augun á Þorsteini Joð, „hringt í vin“, „tekið burt tvö röng svör“ og loks „spurt salinn“ að Emery komst að þeirri niðurstöðu að Xhaka væri besti kosturinn – enda þótt fyrir hafi legið að stór hluti stuðningsmanna liðsins vantreystir leikmanninum sem er víðfrægur fyrir rangar ákvarðanir á velli og að vera eins og umrenningur á umferðarmiðstöð í stóru leikjunum. Því fór sem fór.

Svona lítur alvöru fyrirliði út. Tony Adams huggar Eið okkar …
Svona lítur alvöru fyrirliði út. Tony Adams huggar Eið okkar Smára. REBECCA NADEN


Öðruvísi mér áður brá. Englendingurinn Tony Adams var fyrirliði Arsenal í fjórtán ár, frá 1988 þangað til hann lagði skóna á hilluna 2002, og óumdeildur allan þann tíma. Leiðtogahæfileikar hans gerðir ódauðlegir í kvikmyndum á borð við The Full Monty, eða „Monty dettur í’ða“, eins og gárungarnir kölluðu þá ágætu ræmu. Adams er meðal annars þekktur fyrir að hafa leitt Arsenal til meistaratignar á þremur mismunandi áratugum, níunda og tíunda á seinustu öld og fyrsta á þessari. Goðsögn og löngu steyptur í styttu á Emirates.
Á þeim sautján árum sem síðan eru liðin hefur Arsenal haft hvorki fleiri né færri en ellefu fyrirliða. Takk fyrir, túkall! eins og Doddi litli myndi segja, væri hann að skrifa þessa grein. Og þá erum við að tala um fastráðna menn, enga afleysingapilta og íhlaupagemlinga.

Greinina í heild má lesa í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert