Mikil dramatík í toppslagnum á Anfield

Sadio Mané fagnar marki sínu ásamt Virgil van Dijk.
Sadio Mané fagnar marki sínu ásamt Virgil van Dijk. AFP

Liverpool er með átta stiga forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu eftir 3:1-sigur gegn Englandsmeisturum Manchester City á Anfield í Liverpool í tólftu umferð deildarinnar í dag. Það var mikið um vafaatriði í leiknum og Englandsmeistararnir vildu meðal annars fá tvær vítaspyrnur.

Þetta fór fjörlega af stað og strax á fimmtu mínútu vildu City-menn fá víti þegar boltinn fór í hönd Trent Alexander-Arnold innan teigs. Michael Oliver, dómari leiksins, dæmdi ekkert og Liverpool brunaði upp í sókn. Boltinn barst til Fabinho sem lét vaða af 30 metra færi og boltinn söng í netinu. Mohamed Salah tvöfaldaði forystu Liverpool, sjö mínútum síðar, þegar Andrew Robertson átti frábæra fyrirgjöf frá vinstri. Salah skallaði boltinn af stuttu færi úr teignum í fjærhornið og staðan því 2:0 í hálfleik.

Liverpool byrjaði seinni hálfleikinn af miklum krafti og Sadio Mané skoraði þriðja mark Liverpool á 51. mínútu með skalla eftir snyrtilega fyrirgjöf Jordan Henderson frá hægri. Bernardo Silva minnkaði muninn fyrir City með föstu skoti úr teignum eftir fyrirgjöf Angelino á 78. mínútu. Þremur mínútum síðar fór boltinn aftur í hönd Alexander-Arnolds innan teigs en aftur var ekkert dæmt. City-menn reyndu hvað þeir gátu að bæta við mörkum en Liverpool varðist vel og fagnaði sigri í leikslok.

Liverpool fer með sigrinum upp í 34 stig og er nú með 8 stiga forskot á Leicester og Chelsea sem eru í öðru og þriðja sæti deildarinnar. City er í fjórða sæti deildarinnar með 25 stig, 9 stigum á eftir toppliði Liverpool.

Liverpool 3:1 Man. City opna loka
90. mín. Leik lokið Liverpool fangar 3:1-sigri og liðið er með 8 stiga forskot á toppi deildarinnar og 9 stiga forskot á City.
mbl.is