„Takk fyrir kærlega“

Pep Guardiola var allt annað en sáttur í leikslok.
Pep Guardiola var allt annað en sáttur í leikslok. AFP

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, var allt annað en sáttur með dómarann Michael Oliver eftir leik Liverpool og City sem fram fór á Anfield í Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Leiknum lauk með 3:1-sigri Liverpool en Liverpool komst yfir strax á 6. mínútu með marki Fabinho. City vildi fá vítaspyrnu í aðdraganda marksins en boltinn fór þá greinilega í hönd Alexander-Arnold inn í vítateig Liverpool.

City vildi svo fá aðra vítaspyrnu á 82. mínútu þegar boltinn fór aftur í hönd Alexander-Arnold í stöðinni 3:1 en ekkert var dæmt. Guardiola var brjálaður á hliðarlínunni og öskraði „Tvisvar“ og vísaði til þess að þetta væri annað vítið sem City átti að fá.

Eftir leik rauk hann svo að Michael Oliver, tók þéttingsfast í hönd hans, og hálfpartinn öskraði á hann. „Takk fyrir kærlega! Takk fyrir kærlega,“ sagði Guardiola og gekk svo svekktur af velli en City er nú 9 stigum á eftir toppliði Liverpool.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert